Umhverfisvottuð fasteignaverkefni

4. júní 2024
Orkurreiturinn er BREEM vottað fasteignaverkefni

 

Umhverfisvottuð fasteignaverkefni – hvað felst í því?

BREEAM og Svanurinn

Margir velta eflaust fyrir sér hvað felst í því þegar fasteignir eru auglýstar sem umhverfisvottaðar og þá gjarnan með svokallaðri BREEM-vottun eða Svansvottun. 
BREEAM vottun og Svansvottun eru tvö mikilvæg vottunarkerfi sem taka til umhverfis, heilsu og sjálfbærni.  Hvort kerfið um sig gegnir lykilhlutverki í að stuðla að sjálfbærni og vistvænum starfsháttum í byggingaiðnaði og í vöruþróun sem honum tengist.

BREEAM vottuð fasteignaverkefni

BREEAM er viðurkenndur alþjóðlegur byggingarstaðall til að meta vistvænleika bygginga. BREEAM metur þætti eins og orkunýtingu, vatnsnotkun, efnisöflun og vistfræðileg áhrif af efnisvali og byggingaframkvæmdum. Vottunarkerfið veitir heildrænan ramma fyrir arkitekta, verktaka og fasteignaeigendur til hanna, þróa byggingareiti og reisa byggingar með aðferðum sem lágmarka umhverfisfótspor þeirra og auka vellíðan íbúa.

Dæmi um BREEAM vottað fasteignaverkefni er Orkureiturinn en skipulag reitsins er það fyrsta í Reykjavík sem vottað er af BREEAM Communities vistvottunarkerfinu og hefur það fengið næsthæstu einkunn, sem er „Excellent“.  Á Orkureitnum er ekki látið staðar numið með því að BREEAM-votta skipulagið heldur eru íbúðirnar sjálfar byggðar með það fyrir augum að þær fari í gegnum Svansvottunarferli og séu bjartar, með góðum loftgæðum og vönduðum og umhverfisprófuðum byggingarefnum.

Svansvottuð fasteignaverkefni

Svansvottun getur tekið til allt frá heimilisvörum til byggingaframkvæmda og er ætlað að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum og stuðla að heilbrigðara líferni.  Mikilvægt er að huga að því strax við hönnun bygginga því til þess að hljóta Svansvottun þarf að uppfylla margskonar kröfur um dagsbirtu, hljóðvist, val á og notkun efna og margt fleira.

Vottanir sem hvetja til ábyrgra starfshátta

Bæði þessi vottunarkerfi stuðla að grænni og sjálfbærari framtíð með því að hvetja til ábyrgra starfshátta í fasteignaþróun, vöruframleiðslu, byggingaframkvæmdum og rekstri. Þessir þættir skipta orðið kaupendur fasteigna meira máli en áður og geta vegið þungt í kaupákvörðunum þeirra.
Hvort sem það er í gegnum vistvænar vörur sem bera Svansmerkið eða byggingar sem hannaðar eru samkvæmt BREEAM stöðlum, þá endurspegla slíkar vottanir skuldbindingu framkvæmdaraðila og fasteignakaupenda gagnvart umhverfi og aukinnar sjálfbærni og hvetja aðra til að fylgja í kjölfarið.

Allar nánari upplýsingar um Orkureitinn er að finna á vefsíðu verkefnisins. 

Verið velkomin,
Friðjón Örn Magnússon, höfundur er löggiltur fasteignasali hjá Miklaborg.

📧 fridjon@miklaborg.is
📱569-7026