Opið hús er eins og stórt heimboð

25. júlí 2025
oh

Velkomin heim!

Opið hús er eins og stórt heimboð

Að halda opið hús er eins og að opna nýjar dyr að nýju lífi – bæði fyrir þau sem skoða og þau sem selja. Þetta er augnablikið þar sem fasteignin fær að njóta sín í allri sinni dýrð og tækifæri til að heilla, skapa tengingu og fá mögulegan kaupanda til að hugsa: „Hérna gæti ég séð mig búa. “ Þetta eru fyrstu hughrifin sem skipta öllu máli.

Réttur undirbúningur getur gert gæfumuninn. Hér eru nokkur atriði sem vert er að hafa í huga þegar eign er auglýst til sýnis.

Fyrstu hughrif: Taktu vel á móti fólki – áður en þú hittir það

Fyrsta sýn er allt – og hún byrjar löngu áður en gesturinn gengur inn. Hvort sem það er hrein og snyrtileg lóð, snyrtilegt anddyri eða tandurhreinn stigagangur – það skiptir máli. Góð byrjun setur tóninn.

Andrúmsloft: Hreint, hlýtt og heimilislegt

Við vitum það öll – góð lykt og snyrtilegt heimili hefur áhrif. Vel loftræst íbúð með mildum ilmi getur skapað afslappaða og hlýlega stemningu.

Lýsing, rými og stemning skipta sköpum

Vel upplýst rými með skýru og einföldu skipulagi hjálpar kaupendum að sjá sig fyrir sér í eigninni. Þegar búslóð og daglegt líf raðast náttúrulega inn í rýmið – þá vaknar ímyndunaraflið. Með góðri lýsingu, smá endurröðun og einfaldleika má skapa flæði og stemningu sem selur.

Minna er meira
Fólk hefur ólíkan smekk og því er líklegast til árangurs að stilla hönnun og skrautmunum í hóf. Hlutlaust og smekklega innréttað húsnæði gerir kaupendum kleift að sjá sjálfa sig fyrir sér í eigninni. Hafið einfaldleikann að leiðarljósi og pakkið persónulegum munum niður, t.a.m. fjölskyldumyndum og verðlauna- og söfnunargripum – eða svo gripið sé til erlends máltækis: „Less is more.“ 

Við stöndum með þér í ferlinu

Með réttum undirbúningi getur opið hús orðið lykillinn að sölunni. Við hjá Mikluborg erum alltaf til staðar til að veita ráð, aðstoða og tryggja að opið hús verði eftirminnilegt fyrir rétta fólkið. Við látum þetta ganga upp – saman.

Íris Arna Geirsdóttir, höfundur er löggiltur fasteignasali hjá Miklaborg.
📧 iris@miklaborg.is
📱770-0500