Fasteignalán

25. mars 2025
fasteignalán

Fasteignalán

Íbúðarlán á Íslandi

Við val á íbúðarláni er mikilvægt að taka allar upplýsingar með í reikninginn til að tryggja að valið verði í samræmi við eigin fjárhagsstöðu og langtímaáætlanir. Fjölbreytt lán og vaxtakjör geta gert það að flóknu ferli að velja rétta lánið. Hér verður leitast við að útskýra í einföldu máli það helsta sem þarf að hafa í huga við val á íbúðarláni.

Verðtryggð og óverðtryggð íbúðarlán

Íbúðarlán á Íslandi eru ýmist verðtryggð eða óverðtryggð. Hvor lánategund hefur sína kosti og galla og mikilvægt er að þekkja muninn á þeim til að taka upplýsta ákvörðun.

Verðtryggð lán eru með höfuðstólinn tengdan við vísitölu neysluverðs. Þetta þýðir að ef verðlag hækkar, þá hækkar höfuðstóll lánsins til samræmis við það. Kostur við verðtryggð lán er sá að raunvextir (vextir umfram verðbólgu) eru yfirleitt lægri en á óverðtryggðum lánum sem gerir það að verkum að lánin geta verið ódýrari þegar verðbólga er lág. Á hinn bóginn getur hækkað verðlag leitt til þess að greiðslubyrðin vaxi í takt við verðbólgu, sem getur haft áhrif á greiðsluflæði lántakanda.

Óverðtryggð lán eru lán þar sem höfuðstóllinn breytist ekki í takt við verðlag. Þessi lán eru því ekki háð verðbólgu og greiðslubyrðin er stöðugri yfir lánstímann. Óverðtryggð lán ber yfirleitt hærri nafnvexti en verðtryggð lán en þar sem höfuðstóllinn er ekki breytilegur er greiðslubyrðin útreiknuð og fyrirsjáanleg.

Fastir og breytilegir vextir – munurinn á áhrifum þeirra

Einnig er mikilvægt að taka ákvörðun um hvort velja eigi lán með föstum eða breytilegum vöxtum. Báðar leiðir hafa sína kosti og galla sem er mikilvægt að íhuga út frá eigin fjárhagsstöðu.

Fastir vextir breytast ekki á samningstímanum og eru óháðir markaðsaðstæðum og þróun stýrivaxta Seðlabankans. Flestar lánastofnanir bjóða þann valmöguleika að festa vexti til nokkurra ára í senn. Það gerir greiðslubyrði fyrirsjáanlega og auðveldar áætlanir um framtíðarútgjöld. Lán með föstum vöxtum eru sérstaklega áhugaverð þegar stýrivextir eru lágir, þá nýtur lántakandi góðs af lágu vaxtastigi án þess að þurfa að óttast hækkun vaxta í framtíðinni.

Breytilegir vextir eru tengdir stýrivöxtum Seðlabankans og geta breyst eftir því hvernig vextir þróast. Þeir bjóða upp á meiri sveigjanleika þegar stýrivextir eru lágir en geta líka leitt til óvæntra hækkana ef vextir hækka. Þegar stýrivextir eru háir, getur það haft veruleg áhrif á greiðslubyrði lána með breytilegum vöxtum. Í slíkum aðstæðum getur verið ráðlegt að velja lán með föstum vöxtum til að tryggja stöðugleika í greiðslum og forðast ófyrirséða hækkun vaxta.

Góð hugmynd er að greiða inn á höfuðstól íbúðarláns til að draga úr greiðslubyrði til lengri tíma. Þannig má draga úr heildarfjárhæð greiddra vaxta og minnka áhættu af verðbólgu eða hækkun vaxta.

Niðurlag

Val á íbúðarláni er ákvörðunarferli sem krefst þess að lántakandi hafi skýra mynd af eigin fjármálum og framtíðarþörfum. Með því að velja rétt lán – hvort sem það er verðtryggt eða óverðtryggt, með föstum eða breytilegum vöxtum, ásamt því að huga að því hvernig stýrivextir og greiðsla inn á höfuðstól hafa áhrif – getur einstaklingur tryggt að lánið sé í samræmi við hans eigin áætlanir og fjárhagslegar forsendur.

Gabriel Máni Hallson, höfundur er löggiltur fasteignasali hjá Miklaborg
📧 gabriel@miklaborg.is
📱772-2661

Við erum til þjónustu reiðubúin og fylgjum þér alla leið!