Er hlutdeildarlán fyrir þig?

Er hlutdeildarlán fyrir þig?
Hlutdeildarlán opna því fólki leið inn á fasteignamarkaðinn sem hefur ekki möguleika á að reiða fram fulla útborgun við kaup á íbúð en getur greitt mánaðarlega af íbúðaláni. Þau eru veitt fyrir allt að 20% af kaupverði og ætluð fyrstu kaupendum eða þeim sem hafa ekki átt fasteign síðustu 5 árin. Með hlutdeildarláni minnkar þörf fyrir eigið fé því einungis þarf að leggja út upphæð sem nemur 5% af kaupverði íbúðarinnar. Útborgun má vera hærri en ef hún fer yfir 6,5% þá lækkar hlutdeildarlánið sem því nemur. Íbúðarlán er síðan tekið fyrir því sem eftir stendur.
Hlutdeildarlán eru ólík öðrum lánum að því leyti að hvorki eru greiddar mánaðarlegar greiðslur né vextir af láninu. Þess í stað þarf að greiða lánið að fullu að tíu árum liðnum en jafnframt er möguleiki að framlengja þá lánstímann um 5 ár í senn í samráði við ráðgjafa HMS, að hámarki til 25 ára. Ef íbúðin er seld innan tíu ára þarf að greiða lánið upp samhliða sölunni. Hægt er að greiða inn á hlutdeildarlán á lánstímanum en þá þarf upphæð greiðslu að lágmarki að vera sem nemur 5% af verði eignarinnar eftir verðmat hjá fasteignasala. Lánið er þá endurreiknað og greiðslukrafa send lántakanda fyrir upphæðinni.
Til að eiga möguleika á að fá hlutdeildarlán þarf að uppfylla eftirtalin skilyrði:
- Að vera að kaupa íbúð í fyrsta sinn eða hafa ekki átt íbúð sl. fimm ár
- Að hafa tekjur undir ákveðnum viðmiðunarmörkum
- Að eiga fyrir útborgun sem nemur 5% af kaupverði íbúðar
- Að kaupa íbúð sem er samþykkt af Húsnæðis- og mannvirkjastofnun
- Að standast reglur Seðlabankans um hámark greiðslubyrðar fasteignalána í hlutfalli við ráðstöfunartekjur kaupenda
Húsnæðis- og mannnvirkjastofnun (HMS) úthlutar hlutdeildarlánum alls 12 sinnum á ári og hefur verið miðað við sex úthlutanir á hvorum árshelmingi, eða mánaðarlega að jafnaði.
Allar upplýsingar varðandi umsóknarferli, lántökuskilyrði og uppgjör hlutdeildarlána má nálgast á vefsíðu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og á island.is
Hafðu samband við okkur hjá Mikluborg og við veitum þér ráðgjöf um íbúðarkaup með hlutdeildarláni. Við erum til þjónustu reiðubúin og fylgjum þér alla leið!
📧 miklaborg@miklaborg.is
📱569-7000