Er hlutdeildarlán eitthvað fyrir þig?

15. nóvember 2023
hringhamarmynd

Góð leið inná markaðinn fyrir fyrstu kaupendur

Hlutdeildarlán eru úrræði fyrir tekju- og eignaminni fyrstu kaupendur. Lántakandi leggur fram eigið fé sem þarf að vera að lágmarki 5% umfram skuldir.  LÍN skuldir eru þó ekki taldar með og greiðslur frá LÍN  eru ekki taldar til tekna. Sé eigið fé umfram 6,5% kemur það sem umfram er til lækkunar á hlutdeildarláninu.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun lánar allt að 30%  í formi hlutdeildarláns en lánshlutfallið getur verið lægra.

  • Lánin eru vaxta- og afborgunarlaus.
  • Þau eru veitt til 10 ára en lántakakandi getur einhliða framlengt um 5 ár í senn, þó að hámarki til 25 ára.
  • Greiðast til baka við sölu fasteignar í hlutfalli af söluverði.

Hverjir geta fengið hlutdeildarlán?

  • Fyrstu kaupendur eða aðilar sem hafa ekki átt íbúð í 5 ár. 
  • Einstaklingar með tekjur undir 8.748.000 kr. síðastliðna 12 mánuði eða undir 729.000 kr. á mánuði.
  • Sambúðarfólk sem er með undir 12.219.000 kr. í heildartekjur sl. 12 mánuði eða  undir 1.018.000 kr. á mánuði.
  • Fyrir hvert barn/ungmenni undir 20 ára á framfæri lántakanda eða býr á heimilinu þá mega tekjur hækka um 1.815.000 kr. á 12 mánaða tímabili  per barn/ungmenni eða um 150.000 kr. á mánuði.

Að auki þurfa umsækjendur að standast greiðslumat hjá viðskiptabönkum eða lífeyrissjóðum og má greiðslubyrði ekki fara upp fyrir 40% af ráðstöfunartekjum skv. reglum Seðlabanka Íslands. 

Kaupendur geta sótt um hlutdeildarlán þegar þeir hafa fundið rétta eign eða sótt um lánsvilyrði sem gildir þá í þrjá mánuði frá því að það er gefið út.  

Íbúðir og hámarksverð

Ákveðin skilyrði eru sett varðandi lágmarksstærð og hámarksverð íbúða.  

Dæmi:

  • Á höfuðborgarsvæðinu og vaxtarsvæðum í kringum höfðuborgina er hámarksverð á 60m2, 2ja herbergja íbúð 58 m.kr. 
  • Á landsbyggðinni utan vaxtarsvæða er hámarksverð á 60 m2 , 2 herbergja íbúð 48.5 m.kr.

Hafðu samband við Mikluborg

Hlutdeildarlán henta ákveðnum hópi fyrstu kaupenda og um að gera að skoða hvort þetta lánaform henti þér. Sölumenn Mikluborgar veita frekari upplýsingar um slík lán og íbúðir sem falla undir viðmið Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um hlutdeildarlán.