Er betra að hafa staðfest greiðslumat?

⚖️Er betra að hafa staðfest greiðslumat?
Greiðslumat er fyrsta skrefið þegar kemur að því að sækja um húsnæðislán. Greiðslumat er úttekt á fjárhagslegri stöðu umsækjanda sem tekur mið af tekjum og gjöldum, eignum og skuldum. Niðurstaða greiðslumats segir til um greiðslugetu umsækjanda, þ.e. sú upphæð sem umsækjandi hefur afgangs eftir að útgjöld, s.s. neysla, rekstur fasteigna og bifreiða, auk annarra lána, eru dregin frá ráðstöfunartekjum. Einnig gilda reglur Seðlabankans um greiðslubyrðarhlutfall lána. Greiðslubyrðarhlutfallið segir til um hversu stór hluti af ráðstöfunartekjum má að hámarki fara í að greiða af íbúðalánum. Ráðstöfunartekjur er sú upphæð sem einstaklingur eða heimili hefur til ráðstöfunar eftir að skattar og opinber gjöld hafa verið greidd af heildartekjum. Almennt er hámarkshlutfallið 35% af útborguðum launum en fyrir þau sem eru að kaupa sína fyrstu fasteign er það 40%. Almennt er gildistími á greiðslumati sex mánuðir. Í stuttu máli sagt þá gefur greiðslumat skýra mynd af því hver greiðslugeta þín er og hversu hátt lán þú getur tekið.
Til að geta valið eign við hæfi er mikilvægt að þekkja eigin greiðslugetu. Raunsæi er lykilatriði í fasteignakaupum. Það getur verið freistandi að spenna bogann örlítið hærra þegar leit stendur yfir að heppilegu húsnæði, en mikilvægt er að setja sér skýran og vel skilgreindan fjárhagsramma og halda sig innan hans. Greiðslumat er gott fyrsta skref fyrir fólk í fasteignahugleiðingum og gefur góða vísbendingu um hversu hátt lán þú getur tekið. Þú sem kaupandi stendur sterkar að vígi við tilboð í draumaeignina með greiðslumat að vopni.
Með því að vera með greiðslumatið klárt þá verður þú betri kaupandi og seljandinn er líklegri til að taka þínu tilboði þar sem það er enginn óvissuþáttur.
Við erum til þjónustu reiðubúin og fylgjum þér alla leið!
Stefán Jóhann Stefánsson, höfundur er löggiltur fasteignasali hjá Miklaborg.
📧 stefan@miklaborg.is
📱659-2634