Á ég að kaupa nýja eign?
Á ég að kaupa nýja eign?
Þessi spurning er oft það fyrsta sem kemur upp í hugann hjá fólki þegar tekin hefur verið ákvörðun um að fara í fasteignakaup en ákvörðunin sem slík byggist að sjálfsögðu á aðstæðum hvers og eins á þeim tímapunkti sem viðkomandi er staddur í lífi sínu. Hér að neðan má finna nokkur rök með og á móti því að velja að kaupa íbúð í nýbyggingu.
Ný eign – kostir.
- Viðhald ætti að vera í lágmarki.
- Stundum hægt að hafa áhrif á efnisval, s.s. innréttingar og gólfefni.
- Stæði í bílageymslu fylgir yfirleitt.
- Lyfta oft til staðar, sem margir líta á sem mikinn kost.
- Byggingastjóraábyrgð eftir kaup ef upp koma gallar.
- Að öllu eðlilegu ætti eignin að vera í fyrsta flokks ástandi.
- Yfirleitt gott úrval af mögulegum eignum.
Ný eign – mögulegir ókostir
- Svæðið getur verið byggingarsvæði í töluverðan tíma, þ.m.t. lóð og næsta nágrenni.
- Hverfin yfirleitt í mótun og því hverfisbragur stundum minni eða kemur á lengri tíma.
- Stundum lengra í afhendingu eignarinnar algengt miðað við notaðar eignir.
- Fermetraverð oftast dýrara en í notaðri eign.
- Skóla, leikskóla og íþróttamál geta verið styttra á veg komin en í rótgrónum hverfum ef nýbygging er utan þéttingasvæðis.
Kosti eða ókostir kaupa á nýrri eign geta verið fjölmargir, en fer allt eftir aðstæðum hvers og eins. Það sem einum finnst kostur finnst hugsanlega öðrum vera galli og því getur enginn svarað nema væntanlegur kaupandi. Yfirleitt er þessi ákvörðun tekin út frá fjölskylduaðstæðum eða fyrri reynslu. Fólk kann að vera komið á aldur og vill minnka við sig og selja húsið sitt til að losna við viðhald og aðrar endurbætur og velur því nýja fasteign sem hentar þeim eða fyrsti kaupandinn sem þiggur ráðleggingar frá foreldrum eða ættingjum að best sé að kaupa nýja eign þar sem allur kostnaður sé meira fyrirséður en ekki óvissa um viðhald og endurbætur á næstu árum.
Það væri að æra óstöðugan að telja upp óteljandi forsendur um hvers vegna fólk kaupiu nýja eign eða velji að fara í notaða. Því er oft gott að fá ráð hjá fasteignasala sínum en stundum eru notaðar eignir nánast eins og nýjar eignir ef þær hafa verið endurnýjaðar. Reynslan sýnir að ákvörðun um að kaupa annað hvort nýja eða notaða eign breytist oft ef fólk finnur réttu eignina. Því er mikilvægt að taka ákvörðunina að vel ígrunduðu máli.