Atvinnueignir – tækifæri, þróun og horfur

22. janúar 2024
Atvinnuhúsnæði - tækifæri, þróun og horfur

 

Markaður fyrir atvinnuhúsnæði – tækifæri, þróun og horfur

Samkvæmt tölum frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun var fjöldi þinglýstra kaupsamninga og afsala vegna atvinnuhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu, á tímabilinu janúar–nóvember 2023, samtals 410 sem eru um 22% færri samningar og afsöl en árið á undan. Síðustu mánuðir ársins 2023 gefa þó vísbendingu um að fram undan kunni að vera kraftmikið ár á markaði fyrir atvinnuhúsnæði.  Eignamarkaðir tóku nokkuð við sér á síðasta ársfjórðungi nýliðins árs og ýmis jákvæð teikn eru á lofti varðandi þróun vaxtastigs og jafnvægi á vinnumarkaði.

Bjartar horfur á nýju ári

Ferðaþjónustan, sem er í dag ein lykilatvinnugreina á Íslandi, er í stöðugum vexti og umsvif hennar hafa leitt til aukinnar eftirspurnar eftir ýmiss konar atvinnuhúsnæði. Innstreymi erlendrar fjárfestingar og öflugri eignamarkaður hafa einnig sitt að segja.  
Hvort tveggja ýtir undir aukin umsvif í verslun og þjónustu og skapar tækifæri til fjárfestinga í atvinnu- og verslunarhúsnæði en nokkuð framboð er af áhugaverðum eignum í þeim flokki á höfuðborgarsvæðinu. Með lækkandi vaxtastigi skapast svo tækifæri til nýrra þróunar- og uppbyggingarverkefna.   

Snjalltækni eykur hagræði í húsnæðisrekstri

Þegar kemur að rekstri og þróun atvinnuhúsnæðis þá hefur snjalltæknin skapað fjölmörg tækifæri sem snúa að nýtingu, aðgengi og öryggi atvinnufasteigna. Slík tækni getur einnig lækkað rekstrarkostnað með bættri orkunýtingu og sjálfvirkri fasteignaumsjón. Þá er ljóst að gervigreindin mun fela í sér frekari tækifæri sem og aðgengi að rauntímaupplýsingum. Þeir aðilar sem tileinka sér nýja tækni í fasteignarekstri munu njóta þess með lægri rekstrarkostnaði og aðgengi að betri upplýsingum til ákvarðanatöku.

Áskoranir og tækifæri

Þrátt fyrir bjartar horfur þá eru vissulega enn fyrir hendi áskoranir sem tengjast hækkandi byggingarkostnaði og ríkjandi óvissu varðandi efnahags- og verðbólguþróun. Hins vegar er kraftur í íslensku atvinnulífi, þjóðinni fjölgar og ferðaþjónustunni vex fiskur um hrygg. Slíkar aðstæður skapa kauptækifæri á markaði og gera atvinnuhúsnæði að vænlegum fjárfestingarkosti. Staðan í dag er sú að eftirspurn eftir iðnaðar- og lagerhúsnæði miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu er mikil á sama tíma og byggingalóðir undir slíkt húsnæði eru af skornum skammti. Í dag er verslunarhúsnæði á ákveðnum kjarnasvæðum nánast uppselt og fjárfestar bíða á hliðarlínunni tilbúnir að fjárfesta í atvinnuhúsnæði með leigusamningum. 

Við hjá Miklaborg höfum áralanga þekkingu og reynslu þegar kemur að kaupum og sölu á atvinnuhúsnæði. Hafðu samband ef þig vantar ráðgjöf í þessum efnum – throstur@miklaborg.is