Að verða undir í baráttunni um eignina

2. nóvember 2022
Mynd 14

 

Að verða undir í baráttunni um eignina

Í pósthólfi þínu er glænýr póstur frá eignavaktinni. Svo virðist vera sem að draumaíbúð þín sé komin í
sölu og eignin virðist vera sérsniðin fyrir þig en þú ert búin að vera lengi að skoða eignir í þessu hverfi
og þekkir verðin nánast betur en fasteignasalinn sjálfur. Auglýst er opið hús daginn eftir.
Þú ákveður að mæta í opna húsið og sannfærist ennþá meira um að þetta sé eignin sem henti flestum
þínum þörfum.

Í opna húsinu var stöðugur straumur af áhugasömum kaupendum og fasteignasalinn hefur vart
undan að lýsa kostum eignarinnar fyrir kaupendunum.

Í framhaldi af opna húsinu hefur þú samband við fasteignasalann og óskar eftir því að fá að leggja
fram formlegt kauptilboð. Þó að eignin virðist uppfylla allar þínar þarfir voru eitt og eitt atriði sem þú
varst ekki fullkomlega sáttur við eins móða á milli glerja í einu opnanlegu fagi og kvarnast hafði upp
úr einu horni á eldhúsinnréttingunni. Þess utan þarf að skipta um þak innan nokkurra ára. Því
tilkynnir þú fasteignsalanum að þú ætlir að lækka verðið frá ásettu söluverði og bjóða það sem þú
telur vera markaðsverð eigna af þessu tagi í hverfinu.

Sólarhring síðar hringir fasteignasalinn í þig til að tilkynna þér að eignin hafi verið seld öðrum á ásettu
söluverði. Hljómar þetta kunnuglega?

Eignir eru vissulega mis eftirsóttar og oft er þetta ekki staðan að fleiri en eitt tilboð berst í eignina.
Sum hverfi og jafnvel götur eru eftirsóttari en önnur og reikna má með samkeppni um kaup á þeirri
eign. Fyrir áhugsaman kaupanda að eignum af þeirri tegund er mikilvægt að sjá skóginn fyrir trjánum
og vera meðvitaður um að þegar eign er með ásett söluverð hefur fasteignasalinn unnið markvisst að
því að verðmeta hana á markaðsverði að teknu tilliti til þeirra kosta og galla sem eignin kann að hafa.

En hvað er til ráða og hvernig áttu að bera þig að næst þegar þú reynir við drauma eignina?

 • Hættu að leggja inn tilboð sem eru vel undir ásettu söluverði. Þú telur þig vera með góðan smekk, ekki rétt og þú hefur skoðað fjölmargar eignir í sama hverfi sem hafa verið einungis nokkra daga í sölu þegar þær seljast. Það er klárt að einhverjir aðrir þarna úti hafa einnig góðan smekk og eru ákveðnir í að festa sér eignina. Ekki ofmeta framkvæmdir sem þarf að gera því að öllu eðlilegu ætti að vera búið að taka tillit til þeirra í verðlagningu eignarinnar auk þess sem allt sem þú gerir við eignina hefur áhrif til hækkunar á virði hennar.
   
 • Verandi búin að fylgjast með markaðnum ertu væntanlega komin með tilfinningu fyrir því hvað eignir eru að seljast á. Ef eignin er nýkomin í sölu og þú veist að margar fyrirspurnir hafa borist til fasteignasalans, þá er ýmislegt sem bendir til þess að eignin seljist um eða í kringum ásett söluverð.
   
 • Treystu á upplýsingarnar sem þú færð frá fasteignasalanum en hann á að gæta hagsmuna beggja aðila og þú átt að geta treyst þeim upplýsingum sem frá honum koma. Ekki treysta einungis á ráð frá fjölskyldumeðlimum, vinum eða fjölmiðlum um stefnu markaðarins. Þau bera hag þinn í brjósti en þau hafa í flestum tilfellum ekki puttann á púlsinum á markaðnum sem getur verið síbreytilegur.
   
 • Ef þú misstir af eignum áður íhugaðu þá hvað fór úrskeiðis í fyrri tilboðum þínum sem dugðu ekki til. Varstu með allt of mikið af fyrirvörum t.d. varðandi sölu á þinni eign, varðandi fjármögnun o.s.frv. Þessi atriði skipta miklu máli því að seljandi horfir ekki einungis á tilboðsverð heldur hverjir fyrirvarar þínir fyrir kaupunum eru. Það má ekki gleyma að seljandi getur oft verið búinn að kaupa sjálfur og vill standa við sínar skuldbindingar og því eru tilboð með mörgum fyrirvörum sjaldnast líkleg til árangurs. Ráðfærðu þig við reyndan fasteignasala um slík mál.
   
 • Endurskilgreindu árangur. Mestu skiptir að þú ráðir við kaupin. Hafir greiðslugetu og eigið fé í kaupin og veljir eign sem passar við þína fjárhagslegu stöðu. Forðastu að horfa til þess að eignin gæti lækkað í næsta eða þar næsta mánuði ef eignin er rétt og fjárhagsleg skilyrði þín uppfyllt og horfðu frekar á fasteignakaupin þín sem leið til að tryggja þér þína búsetu til lengri tíma. Hvernig líta kaup út með tilliti til breytinga á fasteignaverði á fimm ára tímabili 2002, 2007, 2012,2017 og 2022. Hver er líkleg staða 2027, 2032, 2037?

Það má ekki gleyma því að fasteignakaup á hverjum tíma hafa alltaf talist erfið og markaðsverð
hvers tíma það hæsta á byggðu bóli eða aðstæður á einhvern hátt ekki réttar. Þú getur neitað að
taka þátt í lögmálum markaðarins en staðreyndin er sú að flestir sem hafa keypt fasteign og hafa
fjárhagslega getu til þess við kaup sjá sjaldnast eftir þeim kaupum. Vandaðu því tilboðsgerð þína
vel.