Ljósmyndun fasteigna

15. september 2022
Ljósmyndun

Ljósmyndun fasteigna

– undirbúningur fyrir myndatöku og opið hús

Þegar fasteign er sett í söluferli er í mörg horn að líta fyrir seljandann. Meðal þess sem hvað mikilvægast er að hafa á hreinu er góður undirbúningur fyrir heimsókn fasteignaljósmyndara í byrjun og svo fyrir opið hús á síðari stigum. Myndirnar sem settar verða á netið eru fyrstu kynni væntanlegra kaupenda af eigninni og þurfa því að vera vel ígrundaðar til að sýna rýmin vel og vekja áhuga þeirra sem þær skoða.

Til viðbótar því að gera hreint, búa um rúm og fara í almenna tiltekt; þarf að huga vel að þáttum eins góðu innflæði dagsbirtu og yfirfara alla lampa og aðra lýsingu. Gæta þarf að góðu jafnvægi í staðsetningum og uppröðun húsgagna svo þau taki ekki yfir allt rýmið. Loka þarf skápum og fjarlægja lausamuni eins og mottur, gæludýraskálar, föt, skó, leikföng, snyrtivörur og handklæði. Slökkva á skjám, hylja snúrur og láta fjarstýringar hverfa. Fallegir munir eins og hljóðfæri, bækur á náttborði, ávextir í skál eða blóm í vasa; geta aftur á móti gefið myndunum hlýrra og heimilislegra yfirbragð.

Utandyra er nauðsynlegt að ganga frá öllu lauslegu þannig að garðurinn skarti sínu fegursta, hvort heldur um sumar eða vetur. Passa þarf að sorptunnur, hjól, bílar og annað í innkeyrslu trufli ekki þau sjónarhorn sem ljósmyndarinn velur. Miklaborg er í samstarfi við Fasteignaljósmyndun ehf. og á vefsíðu þeirra, fasteignaljosmyndun.is, er að finna upplýsingar um allt sem skiptir máli þegar kemur að myndun fasteigna.